Um KrakkaRÚV

KrakkaRÚV er samheiti yfir alla þjónustu RÚV við börn, hvort sem er í sjónvarpi, útvarpi eða á vefnum. Kjarninn í starfseminni er vefurinn www.krakkaruv.is þar sem nálgast má skemmtilegt og fræðandi barnaefni á íslensku á aðgengilegan hátt. 
 

Markmið:

  • Að gleðja íslensk börn, fræða og hvetja til skapandi verka.
  • Að miðla gæðaefni fyrir börn á íslenskri tungu jafnhliða í nýjum og hefbundnum miðlum.
  • Að bjóða börnum í ævintýralegt ferðalag á vit nýrra heima sem opnar augu þeirra fyrir tækifærum lífsins og fjölbreytileika þess.
  • Að stuðla að auknu fjölmiðlalæsi barna.
  • Að búa til góðar minningar og verða órjúfanlegur hluti af æsku íslenskra barna.  
  • Að vera vettvangur fyrir samstarf við félagasamtök og mennta- og menningarstofnanir um barnaþjónustu.

 

Krakkaruv.is

Kjarninn í starfseminni er vefurinn www.krakkaruv.is. Þar er hægt að horfa á hundruð myndskeiða úr safni sjónvarps sem og nýtt afþreyingarefni sem er sérstaklega framleitt fyrir vefinn. Úrval talsettra teiknimynda verður mikið og fjölbreytt og hafa samningar náðst við rétthafa um 30 daga birtingarrétt eða fjórföldun frá því sem áður var. Þarna verður fjölbreytt úrval tölvuleikja sem reyna bæði á rökhugsun og ímyndunaraflið ásamt nægri útrás fyrir sköpunarkraftinn í gegnum fjölmargar þrautir sem hvetja börn til skapandi verka.
 

Útvarp KrakkaRÚV

Útvarp KrakkaRÚV er stafræn útvarpsstöð. Á stöðinni er leikin íslensk barnatónlist alla daga vikunnar í bland við lesnar sögur, leikin ævintýri og vandaða barnaþætti. Frá 20:00 til 22:00 er flutt róleg tónlist sem er kjörin fyrir svefninn.
 


Foreldrar og forráðarmenn

KrakkaRÚV býður upp á öruggt afþreyingarefni og fræðslu á íslensku og kappkostar að eiga í góðum samskiptum við foreldra og forráðamenn.

Öryggi

KrakkaRÚV leggur mikla áherslu á að skapa örugga afþreyingarveröld á netinu þar sem börn geta vafrað um í umhverfi sem hægt er að treysta.  KrakkaRÚV keppist við að verða vettvangur þar sem börn alast upp við góðar og öruggar netvenjur og verða þannig að brú sem aðstoðar börn við að skilja lögmál internetins.

Fræðsla og fjölmiðlalæsi

Til þess að verða virkir þátttakendur í nútímasamfélagi þurfa borgarar að hafa yfirgripsmikla þekkingu á ólíkum þáttum samfélagisins og heimsins alls. KrakkaRÚV leggur mikið kapp á að hafa fjölbreytt og skemmtilegt fræðsluefni sem kynnir börn fyrir því sem í heiminum er. KrakkaRÚV leggur einnig mikla áherslu á efla fjölmiðlalæsi meðal barna; að stuðla að því að þau skilji hvernig upplýsingar, hugmyndir og skoðanir verða til, hvernig þeim er miðlað og að þau öðlist skilning á ólíkum skilaboðum í fjölmiðlum. 

Samskipti við foreldra og forráðamenn

Ábendingar frá foreldrum og forráðamönnum eru mikilvægur þáttur í þróun KrakkaRÚV. Allar hugmyndir að betrumbótum á vefnum má senda á netfangið krakkaruv@ruv.is. Jafnframt væri mjög gagnlegt að fá að heyra hvað vel er gert, skemmtilegar sögur sem tengjast KrakkaRÚV og fleira sem kryddar tilveruna.
 


Mennta- og menningarstofnanir

Stefna KrakkaRÚV er að hafa frumkvæði að samstarfi við mennta- og menningarstofnanir landsins. Á Íslandi starfa fjölmargar stofnanir sem keppast við að veita börnum fjölbreytta og vandaða þjónustu á sviði fræðslu- og menningarmála. KrakkaRÚV er kjörinn samstarfsvettvangur til að miðla á fræðslu- og menningartengdu efni ásamt því að hvetja börn á frumlegan hátt til að skapa eigin verk. 

KrakkaRÚV hvetur starfsfólk mennta- og menningarstofnana til að hafa samband í gegnum netfangið krakkaruv@ruv.is ef hugmyndir vakna um mögulegt samstarf. Það er líka alltaf heitt á könnunni í Efstaleitinu fyrir fólk sem vill koma í heimsókn og spjalla betur um hvernig hægt sé í sameiningu að efla þjónustu við börn á Íslandi.

Jafnframt eru skólar og aðrir hópar hvattir til að koma í heimsókn. RÚV er fjölmiðill okkar allra og er mikilvægt að sem flestir kynnist starfseminni sem þar fer fram.