Saga tölvunnar: Tölvuleikir ( tennis og pong )

 

Allir hafa spilað tölvuleik. Þegar ég var lítill var það Mario Bros og Zelda og í dag er það … Ég skrifa þetta hjá mér sem augnablikið þegar ég fattaði að ég er orðinn gamall. Tölvuleikir hafa breyst gríðarlega síðan þeir fyrstu komu á sjónarsviðið og við munum fjalla betur um nýju tölvuleikina, í öðru myndbandi. En núna ætlum við að skoða þá gömlu. Eldgömlu.

Tölvuleikir eru í raun forrit, alveg eins og ritvinnsluforritið Word eða vasareiknirinn á tölvunni þinni. Tölvuleikir eru bara miklu flóknari forrit og taka meira minni.

Tölvuleikurinn “Tennis fyrir tvo” er af mörgum talinn vera fyrsti tölvuleikurinn. Hann var búinn til árið 1958 og var, eins og nafnið gefur til kynna, tennis fyrir tvo.
Spacewar eða Geimstríð, kom út árið 1962. Þetta var ekkert sérstaklega flókinn leikur. Tveir spilarar sem stjórna sitt hvoru geimskipinu, reyna að sprengja geimskipið hjá hinum. Á miðjum skjánum er svo stjarna sem býr yfir svo miklu þyngdarafli að skipin sogast að henni ef þau koma of nálægt. Það getur að sjálfsögðu bara einn sigrað!

Og síðast en ekki síst: Pong. Tvö strik – einn punktur á stöðugri hreyfingu. Megi betri spilarinn sigra. Pong kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1972 og er spilaður enn þann dag í dag. Hann hefur meira að segja verið spilaður á glerhjúp Hörpu, í Reykjavík.