Saga tölvunnar: Þróun tölva til Turing

Þegar ég segi orðið „tölva“ kemur ákveðin mynd upp í hugann á þér. Kannski áttu borðtölvu, kannski fartölvu, kannski spjaldtölvu eða síma. En tölvur hafa ekkert alltaf litið út eins og þær eru í dag og þær tölvur í aldanna rás hafa verið eins mismunandi og þær voru margar.

Árið 1644 smíðaði Frakkinn Blaise Pascal til dæmis sjálfvirka reiknivél til að hjálpa pabba sínum, sem var skattheimtumaður. Tveimur öldum síðar átti greiningarvél uppfinningamannsins Charles Babbage að taka við skipunum úr gataspjöldum. Og svo þegar seinni heimsstyrjöldin skall á má segja að flóðbylgja af hugmyndum hafi farið af stað. Allir vildu búa til fullkomnari vélar, tæki og tól til að sigrast á óvininum. Þróun tölvunnar tók stórt stökk á þeim árum sem heimsstyrjöldin stóð. Þýski verkfræðingurinn Konrad Zuse var einn af þeim sem gaf í á þessum tíma og smíðaði t.d. reiknivél sem mætti flokka sem tölvu á þessum tíma. Svo voru það bandaríski eðlisfræðingurinn John Mauchly og rafmagnsverkfræðingurinn Presper Eckert sem smíðuðu tölvuna ENIAC, sem hjálpaði bandamönnum að reikna miklu hraðar en venjulega hvert þeir ættu að beina fallbyssunum sínum. Og síðastur en ekki sístur er það Alan Turing. Turing bjó til afar merkilega vél, tölvu, til að afkóða dulmálsskeyti í seinni heimsstyrjöldinni og bjargaði þannig fjölda mannslífa. Við fjöllum nánar um Turing og hans merkilegu afrek í öðru myndbandi.