Saga tölvunnar: Hvað er inni í tölvu?

Þegar tölva kemur til okkar, notandans, er hún eins og eitthvað úr vísindaskáldsögu. Við kveikjum á henni, skjárinn lýsist upp, opnum alls kyns forrit, tengjumst kannski Netinu og við erum ekkert endilega að spá í það hvað er að gerast inni í henni á sama tíma. En tölva er í raun eins og líkami. Það er hellingur að gerast inni í henni sem við tökum aldrei eftir. Nema fartölvan þín verði straumlaus. Þá gerist voða lítið. Og það er óþolandi.
Allavega. Hér eru dæmi um nokkra hluti sem má finna í öllum tölvum og hvað þeir gera:
Örgjörvi: Án örgjörvans gerist ekki neitt. Hann er heilinn á bak við tölvuna. Hann les þær skipanir sem við leggjum fyrir tölvuna og vinnur úr þeim.

Minni: Tölvan þín hefur tvenns konar minni; innra og ytra. Innra minnið er vinnsluminnið. Hvert einasta forrit sem þú opnar, hver einasti leikur sem þú spilar, hvert einasta kattamyndband sem þú horfir á tekur ákveðið vinnsluminni. Því flóknara sem það er, þeim mun meira pláss tekur það. Ytra minnið þekkja flestir sem harða diskinn í tölvunni. Þú getur til dæmis fylgst með því hvernig það losnar meira ytra minni á harða disknum þínum þegar þú tæmir ruslafötuna á tölvunni þinni.

Móðurborð: Ef þú hefur einhvern tímann opnað borðtölvu hefurðu séð glitta í móðurborðið. Flatt í grunninn, með alls kyns litlum hæðum og hólum – svolítið eins og einhver hafi verið svakalega duglegur að kubba tækni-LEGO. Ef örgjörvinn er heilinn er móðurborðið hjartað. Hingað liggja allir vegir. Hér vilja allir vera.
Og síðast en ekki síst: Netkort – kort sem vísar okkur á næsta net, svona ef við viljum veiða. Djók. Sem gerir okkur kleift að tengjast Internetinu.