Vindurinn hreinsaði loftið

02. janúar 2019 - 19:53

Í fyrra var lítill vindur á gamlárskvöld og þess vegna fundu margir fyrir óþægindum út af menguninni frá flugeldunum. 

Í ár mældist miklu minna svifryk á höfuðborgarsvæðinu en í fyrra og sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun segir að þó það hafi verið lítill vindur hafi hann samt náð að hreinsa loftið.

Stuttu eftir miðnætti var loftið skilgreint sem "mjög slæmt" á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Í Dalsmára í Kópavogi, þar sem öll mengunarmet voru slegin um síðustu áramót, á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði og við Egilshöll og Grensásveg í Reykjavík. Loftið er líka oft slæmt við mælistöðina í Húsdýragarðinum í Laugardal og í Melahverfi í Hvalfjarðarsveit.

Ef þið hafið áhuga á að kynna ykkur loftgæði er hægt að fara á vef Umhverfisstofnunar loftgaedi.is og skoða stöðuna.