Vilja útrýma ofbeldi

29. maí 2019 - 18:52

UNICEF er með átak til að vekja athygli á ofbeldi gegn börnum á Íslandi - sem kallað er Stöðvum feluleikinn.  

Eitt barn af hverjum fimm á Íslandi er beitt ofbeldi áður en það verður 18 ára. En hvað er ofbeldi? Ofbeldi getur verið líkamlegt eins og þegar einhver lemur eða meiðir. Það getur verið andlegt sem er til dæmis þegar það er gert lítið úr barni og það kallað ljótum nöfnum. Það getur líka verið ef barni er ekki gefið að borða eða föt þess ekki þvegin. Svo getur ofbeldi líka verið kynferðislegt, en það er til dæmis ef fullorðið fólk snertir einkastaði barna eða lætur börn snerta sína einkastaði. 

Með átakinu Stöðvum feluleikinn er verið að biðja fólk um að kynna sér þetta mál betur og mótmæla ofbeldi á börnum. Bergsteinn Jónsson hjá UNICEF segir að átakið heiti Stöðvum feluleikinn vegna þess að ofbeldi gegn börnum sé of falið. „Við hjá UNICEF viljum að öll börn á Íslandi búi við öryggi og vernd og það er hlutverk okkar fullorðnu að vernda börn. Þess vegna höfum við hafið átak sem heitir Stöðvum feluleikinn vegna þess að okkur finnst ofbeldi gegn börnum eiginlega vera alltof mikið í felum. Þess vegna erum við að biðja ríkisstjórnina, borgina og bæina okkar að gera betur til þess að koma í veg fyrir ofbeldi gegn börnum,“ segir Bergsteinn.

Ef þú heldur að þú eða einhver sem þú þekkir verði fyrir ofbeldi er mjög mikilvægt að segja einhverjum fullorðnum sem þú treystir frá því og biðja um hjálp.