Úthlutað úr Barnamenningarsjóði

28. maí 2019 - 18:52

Um helgina voru í fyrsta sinn veittir styrkir úr Barnamenningarsjóði Íslands. Verkefni sem tengjast íslenskri og norrænni sagnamenningu fengu hæstu styrkina.  

Barnamenningarsjóður var stofnaður á hátíðarfundi á Þingvöllum í fyrrasumar. Hátíðarathöfn var svo í Skála Alþingis nú um helgina þar sem skólahljómsveit Kópavogs lék fyrir gesti og gangandi í sólskinsveðri. Eftir ávarp forsætisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra tilkynnti Kolbrún Halldórsdóttir formaður sjóðsstjórnar um það hverjir fengu styrk.  

36 verkefni fengu styrki og þau eru öll samstarfsverkefni ýmissa stofnana, listamanna og landa. Áhersla er lögð á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hlaut næsthæsta styrkinn fyrir verkefnið Handritin til barnanna og Borgarbókasafnið hæsta styrkinn fyrir söguheiminn Nord, sem er í samvinnu við Danmörku. Verkefnið heitir eftir danskri bók um stúlkuna Nord.  

„Bókin er unnin úr norrænni goðafræði en fjallar í rauninni um umhverfismál og við ætlum að leggja mikið upp úr umhverfismálum og nota tækni til þess að skapa veröld fyrir unglinga þar sem þau geta komið og skapað sjálf og fengið bara einfaldlega að vera,“ segir Guðrún Baldvinsdóttir, verkefnastjóri viðburða og fræðslu. Pálína Magnúsdóttir, borgarbókavörður tekur undir það og segir að krakkar eigi að geta gengið inn í þennan ævintýraheim. „Þú átt að geta gengið inn í þessa veröld hennar Nord sem er stúlka sem er sem sagt að berjast við Verðandi, Skuld og hvað þær heita nú þessar skapanornir og bjarga heiminum,