Tónlist á að sameina

29. maí 2019 - 18:51

Tónlistarkennari á Íslandi hefur notað tónlist til að byggja brú milli erlendra og íslenskra kvenna. Hún segir listina vera sameiginlegt tungumál allra. 

Átján konur frá öllum heimshornum hafa komið saman undanfarið og búið til tónlist. Söguhringur kvenna og Tónlistarborgin Reykjavík sjá um tónlistarsmiðju þar sem aðaláherslan er á að listin sé sameiginlegt tungumál allra.

Sigrún Sævarsdóttir tónlistarkennari segir að listastarf henti vel til að hjálpa fólki að tengjast öðru fólki. „Tilgangurinn er líka að byggja hreinlega samfélagsbrú, ekki bara verkefni fyrir fólk frá öðrum heimshornum, og aðstoða það við að finna að það tilheyri þessu samfélagi hér á Íslandi.“