Körfuboltastelpur ÍR mótmæltu

28. maí 2019 - 18:53

Þjálfari 11 ára stelpnaliðs ÍR, Brynjar Karl Sigurðsson, er hættur að þjálfa liðið eftir að það mótmælti á Íslandsmóti minnibolta.  

ÍR varð Íslandsmeistari í minnibolta stelpna á Akureyri en liðið neitaði að taka við verðlaunum sínum. Stelpurnar segja samkeppnina ekki nógu mikla og vilja fá að spila við stráka. Liðið, undir stjórn þjálfarans Brynjars Karls Sigurðssonar, hefur áður mótmælt því að fá ekki að keppa við stráka.  

Forsvarsmenn körfuknattleiksdeildar ÍR funduðu með foreldrum, Brynjari Karli og öðrum í þjálfarateyminu og þar var tekin sameiginleg ákvörðun um að þjálfarinn myndi hætta að þjálfa liðið. 

Eftir að ÍR sigraði í úrslitaleik á Íslandsmóti ellefu ára stelpna mótmæltu stelpurnar í ÍR. Eftir verðlaunaafhendingu var tónlistin í íþróttahúsinu lækkuð og ein úr liðinu las upp yfirlýsingu. Hún sagði að ástæðan fyrir því að stelpurnar vildu ekki taka við verðlaununum væri sú að þær hefðu ekki fengið að spila við stráka í vetur. Þær tóku því af sér medalíurnar og skildu þær eftir á gólfinu, ásamt bikarnum.  

Sumir foreldrar stelpnanna voru reiðir eftir atburðinn og sumir hafa tekið stelpurnar sínar úr liðinu.