Hver er saga fótboltans?

13. janúar 2016 - 16:45

Hún Emelía Ósk sendi okkur inn spurningu og vildi vita meira um sögu fótboltans og nú er aldeilis við hæfi að reyna að svara henni.

Fótbolti, eða knattspyrna, er vinsælasta íþrótt í heiminum. Talið er að yfir 250 milljónir manna spili fótbolta, í yfir 200 löndum.

Fótboltinn á rætur sínar að rekja til kínverska leiksins cuju, sem var vinsæll á öldunum fyrir Krist þar sem nú er Kína. Cuju þýðir að sparka í bolta og voru leikreglurnar þannig að leikmenn þurftu að sparka bolta inn í mark – og ekki mátti nota hendur.

Ekki ólíkt fótboltanum eins og við þekkjum hann í dag. Í Grikklandi til forna var leikurinn Episkyros vinsæll, en hann var ekki ólíkur nútíma fótbolta. Í Rómvarveldi þekktist leikurinn Harpastum, en í báðum þessum leikjum mátti nota hendurnar.

Fótboltinn eins og við þekkjum hann í dag, með öllum sínum reglum og rangstöðum, þróaðist í almenningsskólum á  Englandi á 19. öld. Þar voru fyrstu reglurnar búnar til, en þær voru kallaðar Cambridge-reglurnar, þar sem þær voru samdar í háskólanum í Cambridge árið 1848. 

1863 var enska knattspyrnusambandið stofnað og fljótlega dreifðist fótboltinn út um allan heim, þar sem hann er spilaður enn þann dag í dag.