Hvað er fullveldi?

24. október 2016 - 17:10

Núna fyrir alþingiskosingarnar höfum við í Krakkafréttum reynt að útskýra ýmis orð sem heyrast oft í tengslum við kosningar en sumum finnst kannski erfitt að skilja. Í dag ætlum við að útskýra orðið fullveldi.

Ef það er stjórn yfir einhverju landsvæði eða hópi fólks sem hefur einkarétt á því að ráða öllum málum þar, þá hefur stjórnin full völd og er því fullvalda. Það er yfirleitt annað hvort einhvers konar ríkisstjórn eða þjóðhöfðingi, eins og konungur, sem er fullvalda.
Íslenska ríkisstjórnin hefur haft fullt vald til að ráða málum Íslands síðan 1. desember 1918. Áður en það gerðist réði Danmörk svo að segja öllu á Íslandi. Þess vegna höldum við upp á fullveldisdaginn 1. desember.
Fullveldi er ekki það sama og sjálfstæði. Þó Ísland væri fullvalda frá árinu 1918 hélt Danmörk áfram að ráða öllum utanríkismálum Íslands. Það breyttist árið 1944 og þá urðum við sjálfstæð og fullvalda þjóð.
Áður var talið mikilvægt að stjórnir væru alveg fullvalda, en í seinni tíð hefur samstarf milli ríkja aukist og þau sætta sig við minna fullveldi til að njóta góðs af víðtæku samstarfi. 
Á Íslandi er stundum deilt um hvort sé mikilvægara, kostirnir sem fylgja fullveldi eða kostirnir sem fylgja alþjóðlegu samstarfi.