Fleiri sækja um í kennaranám

22. maí 2019 - 18:54

Fleiri sóttu um í framhaldsnám í leik- og grunnskólakennaranámi við Háskóla Íslands á þessu ári en undanfarin fimm ár. Umsóknum hefur fjölgað um 30 prósent eða um þriðjung miðað við meðaltal síðustu ára.

Samtals sóttu tvöhundruð sextíu og fjórir um í kennaranám en umsækjendur hafa verið hundrað áttatíu og sex að meðaltali undanfarin fimm ár. 

Í vor kynnti Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, áætlun um að reyna að fjölga kennurum á Íslandi sem heitir „Komdu að kenna“. Samkvæmt áætluninni geta þeir sem læra til kennara fengið greidd laun á fimmta og síðasta námsárinu. Nemendur á lokaári geta einnig sótt um sérstakan námsstyrk til að vinna lokaverkefni sitt.

Lilja segir að áætlunin Komdu að kenna veki vonandi athygli á störfum kennara á öllum skólastigum. Hún segist þess vegna mjög ánægð með fjölgun umsókna.